Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem kröfum þriggja aðila um að fá afhentar upptökur af yfirheyrslum er hafnað.

Forsaga málsins er sú að embætti sérstaks saksóknara tekur upp allar yfirheyrslur á bæði hljóð og mynd. Þær upptökur eru síðan vélritaðar frá orði til orðs, það sem kallast endurritun.

Lögmenn þriggja aðila, sem allir hafa réttarstöðu grunaðra og tengjast kaupum Q Iceland Finance á 5% hlut í Kaupþing s.l. haust, höfðu farið fram á að fá öll gögn sem tengjast yfirheyrslunum afhent. Það er algeng regla hér á landi að við meðferð sakamála fái lögmenn sakborninga afhent öll skjöl sem tengjast málinu og þeim er heimilt að afhenda skjólstæðingum sínum skjölin.

Viðmælandi Viðskiptablaðsins segir að með úrskurði sínum í dag sé Hæstiréttur að skilgreina hugtakið „skjal“ og ljóst að myndbands- og hljóðupptökur falla ekki þar á meðal.

Þegar dómarnir eru skoðaðir kemur fram að embætti sérstaks saksóknara mótmælti því að afhenda gögnin af tveimur ástæðum. Annars vegar á þeim rökum að þarna væri ekki um skjöl að ræða og hins vegar væri vegið að persónu sakborninga með því að afhenta myndbands- og hljóðupptökur af yfirheyrslum yfir viðkomandi. Einn hæstaréttardómaranna skilaði sératkvæði og tók undir þetta sjónarmið.