Hæstiréttur hefur meinað sérstökum saksóknara að leggja fram sex eigin skýrslur rannsakenda í Milestone málinu. Þar með staðfestir dómurinn niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að þessar skýrslur séu greinargerðir rannsakanda, samdar eftir ákæru. Framlagning þeirra samræmist því ekki lögum um meðferð sakamála.

Hæstiréttur kemst hins vegar að því að saksóknara væri heimilt að leggja fram skjal með yfirliti í tímaröð yfir tiltekna atburði og tilvísanir í rannsóknargögn. Ákærðu í málinu höfðu krafist þess að saksóknara yrði einnig meinað að leggja það skjal fram.

Sex eru ákærðir í Milestone málinu. Þeirra á meðal eru aðaleigendurnir, bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir, og forstjórinn Guðmundur Ólason.