Sérstakur saksóknari mun fá öll gögn sem hann óskaði eftir að fá afhend úr húsleit embættisins í Banque Havilland, áður Kaupþing í Lúxemborg. Hæstiréttur Lúxemborgar hefur úrskurðað að lögregluyfirvöld þar í landi þurfi að afhenda gögnin. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Embætti sérstaks saksóknara framkvæmdi húsleit í Banque Havilland í febrúar 2010 í samstarfi við lögregluyfirvöld í Lúxemborg. Aðgerðirnar voru hluti af rannsókn embættisins á meintri markaðsmisnotkun Kaupþings banka og grunsemda um auðgunarbrot. Undirréttur í Lúxemborg samþykkti að afhenda gögnin í desember en 19 aðilar sem áttu bankareikninga í Banque Havilland kærðu afhendingu gagnanna til æðra dómstigs. Það hefur nú kveðið upp sinn úrskurð. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hefur látið hafa eftir sér að gögnin muni hafa verulega þýðingu fyrir rannsókn hans á málefnum Kaupþings.