Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hefur í nægu að snúast í næstu viku en þá mun hann flytja sín fyrstu mál í héraðsdómi fyrir embættið. Málin eru tvö sem tekin verða fyrir í næstu viku; Aurum-málið og Exista-málið.

Ólafur sagði í samtali við Viðskiptablaðið fyrir tæpum mánuði að hann væri einn af fjórum saksóknurum embættis sérstaks saksóknara og því ekki óeðlilegt að hann flytji sjálfur mál. Hann útilokaði ekki að hann muni flytja fleiri mál á vegum embættisins í dómssölum.

Í Aurum-málinu eru hinir ákærðu þeir Lárus Welding, Jón Ásgeir Jóhannesson, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson og snýst í grófum dráttum um kaup Glitnis á bresku skartgripakeðjunni Aurum af Pálma Haraldssyni fyrir sex milljarða króna í maí árið 2008. Tveir milljarðar af kaupverðinu, sem talið er hafa verið yfirverð, runnu til þeirra Pálma og Jóns Ásgeirs. Jón Ásgeir var á sama tíma óbeint einn af stærstu hluthöfum bankans. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag í næstu viku.

Í Exista-málinu eru svo þeir Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformanns Exista, og lögmaðurinn Bjarnfreður H. Ólafsson, ákærðir vegna hlutafjárhækkunar Exista síðla árs 2008. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í október í fyrra og verður málið tekið fyrir á miðvikudag í næsta ári.