Alþingi samþykkti nú undir kvöld frumvarp dómsmálaráðherra um skýrari heimildir til handa embætti sérstaks saksóknara til að kalla eftir upplýsingum og gögnum. Tilgangur breytinganna er að efla og styrkja embættið.

Frumvarpið var samþykkt með 37 samhljóða atkvæðum. Lögin öðlast þegar gildi.

Samkvæmt lögunum er skylt að verða við kröfu embættisins um að láta í té upplýsingar og gögn þótt þær séu háðar þagnarskyldu samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja.

Þá er í lögunum áréttuð sú skylda sem hvílir á starfsmönnum skilanefnda fjármálafyrirtækja, aðstoðarmanna í greiðslustöðvun, umsjónarmanna við nauðasamninga eða skiptastjóra að beina tilkynningum um atvik sem talið er að geti gefið tilefni til rökstudds gruns um refsivert athæfi til embættis sérstaks saksóknara.