Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag að íslenska ríkið skyldi greiða konu 300 þúsund krónur vegna ólöglegra símhlerana.

Sérstakur saksóknari fékk heimild frá dómara til að hlera símanúmer eiginmanns konunnar sumarið 2011 og var hann hleraður um nokkurra daga skeið. Maðurinn var þá til rannsóknar hjá embættinu.

Í einu símtalinu bað eiginmaðurinn viðmælanda sinn að hringja í númer símans sem eiginkonan hafði til umráða. Þann síma hafði lögreglan hins vegar ekki heimild til að hlera. Engu að síður hleraði lögreglan símtalið. Konan krafðist þess að fá eina milljón króna í bætur. Héraðsdómur Reykjavíkur taldi hins vegar rétt að ríkið greiddi henni 300 þúsund.