Þegar mest var störfuðu um 110 manns hjá embætti sérstaks saksóknara, en þegar embættið var lagt niður um síðustu áramót störfuðu þar um 50 manns. Embættið kostaði að minnsta kosti 6,2 milljarða króna á núvirði, samkvæmt ríkisreikningi 2009-2014 og árshlutauppgjöri fyrir fyrstu níu mánuði síðasta árs. Þá er ótalinn kostnaður við embættið á síðustu þremur mánuðum starfstíma þess.

Meðalkostnaður á hverja rannsókn embættis sérstaks saksóknara var um 7,3 milljónir króna á núvirði, en mörg þeirra mála sem embættið hafði til rannsóknar voru mjög umfangsmikil. Fjárheimildir embættisins í fjárlögum voru um 4,9 milljarðar króna á núvirði á sama tímabili, og því fór embættið samtals 1,3 milljarða króna fram úr fjárlögum að núvirði. Það jafngildir 27% framúrkeyrslu miðað við fjárlög.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari og áður sérstakur saksóknari, hefur áður bent á að umfang embættisins hafi reynst mun meira en áætlað var í upphafi. Í samtali við Viðskiptablaðið segir hann ekki rétt að embættið hafi farið fram úr fjárheimildum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .