Síðar í dag mun Héraðsdómur Reykjavíkur kveða upp úrskurði í nokkrum deilumálum sem snúa að framlagningu gagna í Kaupþingsmálinu svokallaða. Meðal þess sem deilt er um er nokkurs konar kauphallarhermir, þ.e. tölvuforrit sem nota má til að sýna með myndrænum hætti þróun viðskipta í Kauphöll Íslands á þeim tíma sem meint markaðsmisnotkun á að hafa farið fram.

Er stjórnendum Kaupþings og starfsmönnum eigin viðskipta Kaupþings gert að sök að hafa með markvissum hætti reynt með ýmsum hætti að stemma stigu við lækkun hlutabréfaverðs eða koma í veg fyrir hana. Þetta á að hafa verið gert með því að halda úti stórum kauptilboðum á markaði, sem voru endurnýjuð jafnharðan og þeim var tekið og með því að setja inn tilboð í uppboðum fyrir og eftir lokun markaða.

Verjendum þykir sem notkun á kauphallarherminum bjóði upp á að málið sé einfaldað um of og að hægt sé að setja það fram með þeim hætti að það máli atburðarásina í dekkri litum en eðlilegt sé.

Einnig er deilt um það hvort saksóknari megi leggja fram tvær lögfræðilegar álitsgerðir frá erlendum lögfræðingum. Afar sjaldgæft er að slíkar álitsgerðir séu lagðar fram fyrir íslenskum rétti, enda er það dómara að úrskurða um lögfræðileg álitaefni.

Líkt og gert hefur verið í öðrum sambærilegum málum gerðu verjendur einnig athugasemdir við framlagningu svokallaðrar skýrslu rannsakenda. Hæpið er hins vegar að dómari hafni framlagningunni, enda hefur Hæstiréttur heimilað hana í öðrum málum þótt rétturinn hafi gert athugasemdir við innihald þeirra.

Að lokum er tekist á um það hvort leggja eigi fram afrit af samtölum tveggja sakborninga við lögmenn. Í öðru tilvikinu a.m.k. er um að ræða samtöl sem fóru fram eftir að sakborningurinn var tekinn í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara. Eftir skýrslutökuna hringdi hann í lögmann sem hann var kunnugur og ræddi málið við hann. Það sem dómari þarf að taka afstöðu til er hvort þessi samtöl eigi að teljast friðhelg samtöl skjólstæðings og lögmanns, þótt lögmaðurinn hafi ekki verið verjandi hans á þeim tíma og sé ekki verjandi hans í málinu.