Skýrsla sem endurskoðunarfyrirtækið PwC vann fyrir Fjármálaeftirlitið um SpKef er komin á borð embættis sérstaks saksóknara og er gert ráð fyrir því að hún  verði kynnt kröfuhöfum sjóðsins síðar í mánuðinum. Stór hluti skulda SpKef er tilkomin vegna lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabankans.

Haft var eftir Ólafi Svanssyni, hæstaréttarlögmanni sem jafnframt er skipastjóri þrotabús SpKef, í hádegisfréttum fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, að skýrslan sé eitt af þeim gögnum sem hjálpuðu til við að skýra ástæðu þess að SpKef fór á hliðina.

Sérstök úrskurðarnefnd komst að þeirri niðurstöðu fyrir helgina síðustu að ríkið þarf að greiða Landsbankanum rétt rúma 19 milljarða vegna ríkisábyrgðar á innstæðum í SpKef. Ásamt vaxtagreiðslum af skuldabréf sem ríkið tekur og eiginfjárframlagi ríkisins til SpKef falla um 26 milljarðar króna á herðar ríkisins vegna bankans.

Stofnfjáreigendur skoða mál gegn stjórnendum og endurskoðendum

Þess má geta að Viðskiptablaðið greindi frá því í síðasta tölublaði sínu að samþykkt hafi verð á fundi samtaka stofnfjáreigenda Sparisjóðsins í Keflavík nýverið að hefja málaferli gegn fyrrverandi stjórnendum og endurskoðendum sjóðsins. Líklegt þyki að fjöldi mála verði höfðaður gegn þessum aðilum. Mál stofnfjáreigenda eru af ýmsum toga þar sem misjafnt er hvernig staðið hafi verið að fyrirkomulagi endurgreiðslna á lánum og afskriftum þeirra.

Sparisjóðurinn í Keflavík.
Sparisjóðurinn í Keflavík.
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)