Embætti sérstaks saksóknara er með til rannsóknar lánveitingar til breska félagsins Crosslet Vale Limited vegna gruns um meinta markaðsmisnotkun með hlutabréf bankans í aðdraganda hruns. Félagið er í eigu bræðranna Mendi og Moises Gertner. Tilkynnt var um kaup bræðranna á 2,5% hlut í Kaupþingi í utanþingsviðskiptum í júní 2008. Þeir fengu lánað hjá bankanum fyrir kaupunum rétt tæpan 1,1 milljarð sænskra króna, jafnvirði 14,5 milljarða íslenskra króna, án trygginga.

Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, sagði í samtali við fjölmiðla á sínum tíma hafa þekkt til Gertner-fjölskyldunnar í nokkurn tíma og hafi hann verið mjög ánægður með að fá fleiri erlenda fjárfesta að Kaupþingi. Kaupin sýni að menn hafi trú á bankanum. Aðspurður sagði hann í samtali við Viðskiptablaðið telja það hafa verið mat Gertner-fjölskyldunnar, að evrópskir bankarn væru almennt lágt verðlagðir og hún hafi því séð tækifæri í því að kaupa hlutabréf Kaupþings.