Peningagreiðslur úr Landsbankanum hinn 6. október 2008 og kaup á verðbréfum úr Landsvaka, rekstrarfélagi sjóða bankans, eru til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara sem „stórfelld auðgunarbrot“ og beinist rannsóknin m.a. að því að ljóst hafi á þessum tíma verið að bankinn hafi verið ógjaldfær. Frá þessu greinir DV í dago og vísar til bréfs frá sérstökum saksóknara til Nýja Landsbanka sem blaðið hefur undir höndum.

Í bréfinu, sem er dagsett 20. janúar sl., er þess óskað að starfsmenn bankans láti embættið hafa upplýsingar um fimm mál sem greint var frá sama dag að væru til rannsóknar. Eins og fram kom á vb.is 20. janúar framkvæmdi sérstakur saksóknari húsleitir á fimm stöðum, þ.m.t. Seðlabankanum og MP banka,  og voru nokkrir handteknir í sambandi við húsleitirnar.

Í frétt DV er vitnað orðrétt í bréf sérstaks saksóknara þar sem segir: „ Embætti sérstaks saksóknara skv. lögum nr. 135/2008 hefur til rannsóknar ætluð stórfelld auðgunarbrot er tengjast peningagreiðslum út úr Landsbanka Íslands þann 6. október 2008, á þeim tíma sem ljóst mátti vera að bankinn væri ógjaldfær.“ Bankinn féll daginn eftir að þessar peningagreiðslur áttu sér stað.