Dómsniðurstaðan í Al Thani-málinu mun að öllum líkindum hafa fordæmisgildi í öðrum málum sem embætti sérstaks saksóknara er með í vinnslu, að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara. Hann segir í samtali við Fréttablaðið dóminn sem féll í málinu í gær í samræmi við það sem embættið átti von á og ekki langt frá því sem farið var fram á. Hann reiknar hins vegar við að öllum dómunum verði áfrýjað eins og öðrum málum embættisins í héraðsdómi.

Í Al Thani-málinu í gær var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, dæmdur í fangelsi til fimm ára. Þá hlaut Ólafur Ólafsson, sem var með helstu hluthöfum Kaupþings og tengdur Al Thani - þriggja og hálfs árs dóm og Magnús Guðmundsson, fyrrum bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, þriggja ára dóm. Ólafur er sá eini fjórmenninganna sem hefur lýst því yfir að hann ætli að áfrýja dóminum.

Þungir dómar fyrir umboðssvik

Saksóknari krafðist sex ára fangelsisdóms yfir Sigurði og Hreiðari Má en fjögurra ára fangelsis yfir Magnúsi og Ólafi en þeir eru ákærðir fyrir hlutdeild í meintum brotum Hreiðars og Sigurðar þegar Kaupþing lánaði Al Thani um 26 milljarða króna til að kaupa 5,01% hlut í Kaupþingi örfáum dögum áður en bankinn fór á hliðina.  Sérstakur saksóknari taldi um sýndarviðskipti að ræða og ákærði fjórmenningana á þeim grundvelli fyrir umboðssvik vegna ólöglegra lánveitinga og markaðsmisnotkun fyrir að gefa rangar upplýsingar um stöðu bankans.