Hæstiréttur hefur staðfestúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, beri að koma fyrir dóm og gefa vitnaskýrslu í máli Pálma Haraldssonar á hendur Glitni hf. Samkvæmt dómi Hæstaréttar er ástæðan sú að skýringar embættisins í bréfum á meintu samstarfi þess við slitastjórn Glitnis í þágu sameiginlegra hagsmuna þeirra eru ekki taldar svara spurningum sem eru uppi í máli Pálma og Glitnis.

Málið er komið til vegna þess að Pálmi telur embætti sérstaks saksóknara hafa átt í samstarfi við slitastjórn Glitnis banka um að samhæfa aðgerðir sínar í þágu mála sem síðarnefndu aðilarnir hafi staðið í gegn honum. Á þeim tíma hafði Glitnir rekið mál gegn Pálma fyrir dómstóli í New York ríki í Bandaríkjunum og Pálmi var þá sakborningur í máli sem embætti sérstaks saksóknara hafði til meðferðar.

Í dómi Hæstaréttar koma fram upplýsingar úr kvaðningu Pálma til Ólafs Þórs, þar sem hinn síðarnefndi er kvaddur til að gefa vitnaskýrslu í máli Pálma gegn Glitni.

Ólafur hafði upphaflega hafnað því að gefa vitnaskýrslu í máli Pálma gegn Glitni í ljósi þess að hann taldi sig hafa svarað spurningum Pálma í bréfum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .