*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 15. nóvember 2013 13:37

Sérstakur saksóknari yfirheyrði Þorstein Má Baldvinsson

Þorsteinn Már Baldvinsson hafnar þeim ásökunum sem Seðlabankinn ber hann.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri útgerðarfélagsins Samherja, var kvaddur til skýrslutöku í síðustu viku vegna máls Seðlabanka Íslands sem hófst með húsleitinni hjá Samherja fyrir nær tveimur árum. Í bréfi til starfsmanna Samherja segir Þorsteinn að fagna megi því að nú skuli vera komin hreyfing á málið og að sjónarmið Samherja fái að koma fram. 

„Hins vegar þótti mér auðvitað erfitt að þurfa að mæta í þessa skýrslutöku hjá Sérstökum saksóknara með réttarstöðu manns sem grunaður er um afbrot. Það á við um mig eins og ykkur öll; við vinnum okkar störf af heiðarleika og samviskusemi. Annað hvarflar ekki að neinu okkar,“ segir hann. 

Þorsteinn segir að við skýrslutökuna hafi komið betur í ljós en áður hvaða brot Seðlabanki Íslands sakar Samherja um. „Annars vegar er um að ræða verðlagningu á fiskafurðum til útflutnings og hins vegar ætluð brot á skilaskyldu á gjaldeyri í fyrirtækjum tengdum Samherja erlendis  Þessi meintu brot eru ólík að eðli og umfangi,“ segir Þorsteinn. 

Þorsteinn segir að umsvif Samherja í fiskútflutningi séu ein þau mestu meðal íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Kæra Seðlabankans lúti að mjög afmörkuðum hluta þessa útflutnings sem séu 5 tonn af bleikju, 300 tonn af ufsa og 1800 tonn af karfa yfir þriggja ára tímabil. Umfangið samsvari hálfs dags veltu fyrirtækisins á ársgrundvelli. „Ætluð brot í þessum tilfellum eiga að vera þau, að viðskipti hafi átt sér stað milli tengdra aðila á lakari kjörum en tíðkast í viðskiptum óskyldra aðila. Á sama tíma hefur Samherji flutt inn fisk til vinnslu frá tengdum aðilum sem í heild eru nálægt 6000 tonn og er fimmfalt verðmeiri en sá útflutningur sem til skoðunar er,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir að hjá Samherja hafi farið fram ítarleg rannsókn á þessum ásökunum og ekkert athugavert fundist varðandi viðskipti eða starfshætti félagsins sem réttlætt geti þær aðgerðir sem félagið hafi verið beitt af hálfu Seðlabanka Íslands. „Satt að segja hvarflar oft að mér að þessi þáttur rannsóknar Seðlabankans sé tilbúningur einn, til þess gerður að finna tilefni til að ráðast inn á skrifstofur okkar í leit að öðrum sakarefnum. Svo rangir voru útreikningarnir og langsóttar ásakanirnar,“ segir Þorsteinn Már.

Þorsteinn segir að síðari hluti rannsóknarinnar snúist um brot á skilaskyldu á gjaldeyri hjá fyrirtækjum sem tengist Samherja erlendis. „Umfang þessa hlutar rannsóknarinnar er mun meira. Ég fæ ekki betur séð en að röksemdafærsla Seðlabankans sé sú að erlendu félögin séu í raun íslensk og eigi því að falla undir reglur um skil á gjaldeyri,“ segir hann, en hafnar um leið þeirri túlkun Seðlabankans.