Nefnd, sem ráðleggur bandaríska fjármálaeftirlitinu, SEC, hefur lagt það til að sett verði á stofn sérstök kauphöll þar sem aðeins þeir allra ríkustu mega eiga viðskipti með hlutabréf. Til að mega fjárfesta og eiga viðskipti á kauphöllinni þyrfti viðkomandi annað hvort að eiga að minnsta kosti eina milljón dala í hreina eign eða hafa verið með 200.000 dali (um 25,3 milljónir króna) í árstekjur síðustu tvö árin á undan.

Hugmyndin að kauphöllinni er sú að þar gæti smærri fyrirtæki skráð sig á markað með minni fyrirhöfn en skráning krefst nú. Ekki yrðu gerðar sömu kröfur til skráningarlýsingar og um aðra upplýsingagjöf og því yrði kostnaðurinn við skráningu minni en hann er núna.

Til að verja almenna fjárfesta fyrir aukinni áhættu og forða þeim frá tjóni er lagt til að aðeins þeir geti tekið þátt í viðskiptum sem í raun hafi efni á að taka á sig tapið. Talsmenn almennra fjárfesta hafa lagst gegn hugmyndum nefndarinnar og segja þær geta leitt til þess að almenningur missi af góðum fjárfestingartækifærum.