*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 15. október 2019 14:27

Sérstök sölusíða fyrir hús Skúla

Fyrrum forstjóri Wow air vill fá um 700 milljónir fyrir einbýli á Seltjarnarnesi. Markaðsett fyrir útlendinga.

Ritstjórn
Skúli Mogensen stofnaði og stýrði flugfélaginu Wow air meðan það starfaði.
Haraldur Guðjónsson

Einbýlishús Skúla Mogensen, stofnanda og fyrrum forstjóra hins fallna flugfélags Wow air, á Seltjarnarnesi hefur verið sett á sölu, en ekki á þann hátt sem almennt hefur verið gert hér á landi. Í stað hefðbundinnar auglýsingar á fasteignavefjum hefur verið sett upp sérstök sölusíða um þessa einu eign á ensku sem augljóslega er ætluð til að markaðssetja eignina á alþjóðlegum markaði.

Heimasíðan leggur áherslu á að eignin sé við sjávarsíðuna, enda vísar slóðin oceanvillaiceland.com, eða sjávarslotið á hinu ástkæra ylhýra, beint til þess og sýnir mynd af húsinu tekið úr grjótklæddum sjávargarðinum fyrir neðan. Undirfyrirsögnin segir svo að nú sé eitt magnaðasta slot Íslands til sölu.

Loks má skoða sérstaka tenglsa sem vísa á myndir úr og umfjöllun um húsið, annar sýnir skipulag þess, einn fjallar um staðsetninguna en segir í raun eingöngu að húsið sé á Seltjarnarnesi sem sé eitt elsta sveitarfélag landsins og hafi áður náð yfir meirihluta Reykjavíkur. Það hafi varðveitt strandlengjuna vel og sé umvafið hafinu á þrjár af fjórum hliðum.

Síðan undir tengli þar sem spurt er hvers vegna Ísland, er sagt að eingöngu hér megi finna jafnsérstætt landslag og náttúrufegurð undir skini norðurljósa, og jafnframt eru listaðir upp kostir landsins á sviði öryggis, matarhefðar, langlífis, jafnréttis og mannréttinda, hreinna orkugjafa og svo séu 29 flugfélög sem fljúgi til landsins til yfir 100 áfangastaða.

Fram hefur komið að Skúli vilji fá 700 milljónir króna fyrir húsið að því er RÚV greinir frá, en síðan vitnar í Grétar Jónasson framkvæmdastjóra Félags fasteignasala sem segir þessa söluaðferð ekki hafa verið reynda hér áður. Hann segir jafnframt að verðhugmyndin sé langt yfir því verði sem alla jafna sjáist á Íslandi.

Hér má sjá sölusíðuna en þar kemur jafnframt fram að húsið er 630 fermetrar að stærð, með fimm baðherbergjum, 3 svefnherbergjum, líkamsræktarsal, tveim heitum pottum, kvikmyndasal, tveimur svölum, skrifstofu, fjölskylduherbergi, þvottaherbergi og því sem kallast á ensku leðjuherbergi en vísar í aukainngang í bandarísku málfari.

Húsið var hannað af Grandi Studio árið 2008 og er það sagt njóta mikils útsýnis yfir hafið og fjöllin, sólsetrið við flóann og byggt úr gæðaefnum úr náttúrulegum hráefnum, reyktri eik, íslenskum steini, og marmara, auk þess að vera hlaðið nýjustu tækni sem hægt sé að stýra miðlægt í gegnum Savant stýrikerfið. Innanhúsarkitektarnir voru svo Selma Ágústsdóttir frá Namó Design og Gríma Björg Thorarensen frá GBT Interiors.