Sérsveit Ríkislögreglustjóra hefur undanfarna daga séð um öryggisgæslu Geir H. Haarde, forsætisráðherra og fylgt honum hvert fótmál – í það minnsta að degi til.

Gréta Þorsteinsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé vitað til þess að Geir hafi fengið hótanir að undanförnu sem kallað hefði á vernd sérsveitarinnar.

Gréta segir að Ríkislögreglustjóri hefði þó metið stöðuna þannig að þörf væri á vernd forsætisráðherra um óákveðin tíma. Ráðuneytið hefði ekki beðið um vernd að fyrra bragði.

Þá sá embætti Ríkislögreglustjóra einnig ástæðu til að sérsveitin tæki að sér öryggisgæslu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra en hann ku hafa afþakkað slíka vernd eftir sólarhring.

Sérsveitarmenn sem fylgja Geir eru óeinkennisklæddir og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins vopnaðir en slíkt er venja við verkefni sem þessi.