Samkvæmt upplýsingum úr vinnugögnum í iðnaðarráðuneytinu, sem Viðskiptablaðið óskaði eftir frá Skúla Helgasyni þingmanni eftir greinaskrif hans um atvinnumál á vefsíðunni Pressan.is, hafa 2.392 störf þegar orðið til vegna sértækra aðgerða stjórnvalda í atvinnumálum. Þegar yfir lýkur er gert ráð fyrir að 4.148 störf skapist vegna sértækra aðgerða í atvinnumálum.

Nokkur óvissa er þó um hversu mörg ársverk, þ.e. full stöðugildi, eru að baki einstaka verkefnum. Til að mynda gerðu áætlanir stjórnvalda ráð fyrir að 120 til 150 störf myndu verða til vegna hækkunar endurgreiðslna til kvikmyndagerðar. Í vinnugögnunum úr iðnaðarráðuneytinu segir að áætlanir framleiðenda kvikmyndanna geri ráð fyrir því að margir komi að gerð kvikmyndanna, en ekki er tekið fram hversu mörg stöðugildi eru að baki.

„Gefin hafa verið út 17 vilyrði fyrir endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar og gera áætlanir framleiðenda ráð fyrir að 733 muni kom að framleiðslu þeirra kvikmyndaverkefna sem um ræðir. Ekki er þó í öllum tilfellum um ársstörf að ræða heldur tímabundin störf sem eftir er að staðfesta hve umfangsmikil verða,“ segir í vinnugögnunum.

Þá er bygging tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík, sem ríkið og Reykjavíkurborg hafa skuldibundið sig til þess að leggja til 800 milljónir á ári næstu 35 ár, sögð skapa um 600 störf en nú þegar hafa skapast um 430 störf við verkið.