Sértryggð skuldabréf Arion banka, ARION CB 15, verða tekin til viðskipta í Kauphöllinni í dag. Skuldabréfin eru annar flokkurinn sem gefinn er út undir sértryggðum skuldabréfaramma Arion banka. Heildarútgáfa flokksins er 1.320 milljónir króna. Bréfin bera 6,5% óverðtryggða vexti og eru þau á lokagjalddaga 16. maí árið 2015.

Fram kemur í tilkynningu frá Arion banka að samið hafi verið við MP banka um viðskiptavakt með skuldabréfin. MP banki mun samkvæmt því daglega setja fram kaup- og sölutilboð í viðskiptakerfi Kauphallarinnar sem nema að lágmarki kr. 20 milljónum króna að nafnvirði á gengi sem MP banki ákveður í hvert skipti. Munur á kaup- og sölutilboði er að hámarki 1%.

Heildarfjárhæð tilboða sem MP banki skuldbindur sig til að setja fram á degi hverjum er 60 milljónir króna.