Viðskipti hófust í morgun með sértryggð skuldabréf Landsbankans á NASDAQ OMX Iceland. Þetta er fyrsta skráning á verðbréfum sem útgefin eru af Landsbankanum. Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans hringdi bjöllu Kauphallarinnar á Íslandi til marks um upphaf viðskiptanna og skráningu bréfanna.

Landsbankinn gaf út sértryggð skuldabréf 10. júní. Heiti útgáfunnar er LBANK CB 16 og eru bréfin óverðtryggð með föstum 6,30% vöxtum til þriggja ára. Bankinn hyggur á frekari útgáfu í nánustu framtíð.

Útgáfa sértryggðra skuldabréfa styður við fjármögnun íbúðalánasafns bankans um leið og hún dregur  úr fastvaxtaáhættu. Samhliða útgáfunni í júní lækkaði Landsbankinn kjör á óverðtryggðum íbúðalánum með föstum vöxtum til 36 mánaða úr 7,50% í 7,30% og hafa vextirnir staðið óbreyttir síðan þá.

Fjárhæð útgáfunnar nam 1.220 milljónum króna og þar af voru 1.160 miljónir seldar til fjárfesta á markaði. Sú upphæð sem eftir stendur verður nýtt til viðskiptavaktar  í Kauphöllinni og hefur Landsbankinn gert samning við Straum fjárfestingabanka hf. um hana.