Sesselía Birgisdóttir, sem situr í stjórn Sýnar, keypti í dag hlutabréf í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu fyrir 3 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Sesselía keypti alls 50 þúsund hluti á genginu 60 krónur á hlut rétt fyrir tólfleytið í dag. Samkvæmt heimasíðu Sýnar átti hún enga hluti í fyrirtækinu fyrir kaupin.

Sesselía, sem starfar sem forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála hjá Högum, var kjörin í stjórn Sýnar á aðalfundi félagsins í mars. Hún hlaut endurkjör á hluthafafundum Sýnar í ágúst og október.

Sýn tilkynnti á þriðjudaginn um skipulagsbreytingar sem fela m.a. í sér breytingar á framkvæmdastjórn, fækkun stöðugilda samstæðunnar og að starfsemi félagsins er skipt upp í tvær kjarnaeiningar.