Sesselja Ingibjörg Barðdal hefur verið ráðin framkvæmdastjóri nýsköpunarverkefnisins EIMS. EIMUR er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Markmið verkefnisins er að bæta nýtingu orkuauðlinda og auka nýsköpun í orkumálum á Norðausturlandi. Ætlunin með samstarfinu er meðal annars að byggja upp atvinnulíf og auka verðmætasköpun á svæðinu, með sérstakri áherslu á sjálfbærni, grænar lausnir, nýsköpun og hátækni. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Ég tel að nýsköpun á Norðausturlandi eigi mikið inni. Hér eru mikil tækifæri til þess að skapa verðmæti og atvinnu á svæðinu, bæði í orku- og matvælaiðnaði. Tækifærin liggja í að byggja upp kraftmikið samfélag fyrir frumkvöðla með spennandi hugmyndir," segir Sesselja sem er spennt að takast á við ný og spennandi verkefni.

Sesselja starfaði áður sem framkvæmdastjóri Kaffi Kú í Eyjafjarðarsveit þar sem hún er jafnframt eigandi. Sesselja situr í stjórn Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar og í stjórn Stefnumótunar heilsárferðaþjónustu í Eyjafjarðarsveit.

Sesselja útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri og er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Áður lauk Sesselja sveinsprófi í framreiðslu frá Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi.

Ottó Elíasson var samhliða Sesselju ráðinn sem rannsókna- og þróunarstjóri EIMS. Ottó er með doktorspróf (Ph.D.) og M.Sc. gráðu í tilraunaeðlisfræði frá Árósarháskóla í Danmörku. Áður útskrifaðist Ottó með B.Sc. gráðu í eðlisfræði frá Háskóla Íslands.

„Við verðum að ganga vel um jörðina svo börnin okkar fái notið gæða hennar rétt eins og við. Hér á Norðurlandi eystra liggja mikil tækifæri í betri nýtingu orkuauðlinda og hráefnis sem hér er unnið. EIMUR mun starfa með fyrirtækjum svæðisins, skólum hérlendis og erlendis og almenningi að verkefnum sem miða að því að samfélagið okkar verði sjálfbært. Ég hlakka mikið til að veita kröftum mínum og þekkingu í þá vinnu," segir Ottó.