Jeff Sessions, þingmaður Repúblikana, verður að öllum líkindum nýr dómsmálaráðherra Donalds Trump. Frá þessu greina fréttastofur vestanhafs á borð við New York Times , CNN og Washington Post .

Donald Trump, næsti forseti Bandaríkjanna, hefur boðið Jeff Sessions, þingmanni Repúblikana frá Alabama, að vera dómsmálaráðherra í ríkisstjórn sinni. Þetta kemur fram í öllum helstu miðlum vestanhafs.

Sessions hefur stutt við bakið á Trump í kosningabaráttunni og styður til að mynda hugmynd Trumps um að byggja landamæravegg við Mexíkó. Hins vegar hefur ráðningin ekki fengist staðfest frá talsmönnum Trump-teymisins.

Hingað til hefur Donald Trump einnig boðið Michael Flynn stöðu þjóðaröryggisráðgjafa og Mike Pompeo stöðu yfirmanns CIA leyniþjónustunnar.