Nýr meirihluti í Reykjavík hyggst óska eftir því að fundur verði haldinn í borgarstjórn á fimmtudag þar sem nýr meirihluti mun formlega taka við völdum og þar með nýr borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna, verður staðgengill borgarstjóra og formaður borgarráðs fyrri hluta þess tíma sem eftir lifir kjörtímabilsins.

Eftir það verður Vilhjálmur borgarstjóri og Ólafur F. formaður borgarráðs og staðgengill hans, samkvæmt samkomulagi oddvitanna.

Sjálfstæðismenn og Ólafur F. Magnússon kynntu málefnaáherslur nýs meirihluta á Kjarvalsstöðum á áttunda tímanum í kvöld.

Þar segir meðal annars að Reykjavíkurflugvöll eigi að sýna í óbreyttri mynd í aðalskipulagi „á meðan rannsóknir standa yfir vegna nýs flugvallarstæðis á höfuðborgarsvæðinu," eins og segir í plagginu. „Ekki verður tekin ákvörðun um flutning Reykjavíkurflugvallar á kjörtímabilinu."

Þá á að stefna að því að leita leiða til að varðveita 19. aldar götumynd Laugavegarins og miðborgarinnar sem kostur er. Orkuveita Reykjavíkur og orkulindir hennar eiga áfram að vera í eigu almennings. Lækka á fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði á árinu og fjölga á hjúkrunarrýmum og þjónustuíbúðum fyrir aldraða.

Ólafur sagði að þessi stefnumörkun bæri mjög keim af þeim áherslum sem F-listinn hefði lagt upp með í síðustu kosningabaráttu. „Ég er stoltur af því að hafa komið okkar málum svo rækilega á dagskrá," sagði hann.

Vilhjálmur sagði að hið nýja samstarf væri myndað á mjög traustum og málefnalegum grunni. Hann kvaðst mjög ánægður með þann málefnasamning sem nú lægi fyrir. „Hann er ekki mjög langur en hann er hins vegar mjög skýr."

Hann sagði að á næstu dögum yrði fulltrúum nýs meirihluta raðað í nefndir og ráð á vegum borgarinnar.