Nokkrir aðilar vinna nú að því að safna saman fjárfestum til að gera tilboð í allt hlutafé Arion banka, en samsetning hópanna er mislangt á veg komin. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Arctica Finance rætt við fjárfesta um kaup á bankanum og mun sú vinna vera nokkuð langt komin, en í hópnum er m.a. að finna nokkra lífeyrissjóði auk annarra fjárfesta.

Að því sem næst verður komist eru væntir þátttakendur í hópnum allir innlendir, en ekki er útilokað að það breytist. Auk Arctica-hópsins munu tveir aðrir aðilar vera að reyna að mynda fjárfestahópa, en Viðskiptablaðið hefur ekki heimildir fyrir því hverjir standa að baki þeim.

Meiri áhugi er á kaupum á Arion banka en Íslandsbanka, einkum eftir að kröfuhafar Glitnis breyttu tillögum sínum að stöðugleikaframlagi í þá átt að ríkissjóður fengi allt hlutafé í bankanum í sínar hendur. Það þýðir að söluferli á Íslandsbanka verður óhjákvæmilega allt þyngra, enda er ekki annars að vænta en að stjórnarflokkarnir vilji vanda sig við söluna á bankanum og forðast í lengstu lög að hægt sé að gagnrýna söluferlið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .