Fjárfestingafélagið Dalurinn umbreytti 190 milljónum af hluthafaláni til Birtíngs útgáfufélags í hlutafé á hluthafafundi þann 15. desember síðastlið­inn. Á móti var 85 milljóna króna ójöfnuðu tapi fyrri ára ráðstafað til lækkunar á hlutafé félagsins.

Dalurinn, sem er í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar, Halldórs Kristmannssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar, keypti Birtíng á síðasta ári. Halldór segir að rekstrargrundvöllur Birtíngs sé tryggður. Allar skuldir félagsins hafi verið gerðar upp að undanskildu einu tíu ára skuldabréfi við Arion banka. Birtíngur gefur út Gestgjafann, Vikuna, Hús og Híbýli og Mannlíf.