Eigendur Mjólkursamsölunnar lögðu félaginu til 2,33 milljarða króna í aukið hlutafé milli jóla og nýárs.

Auðhumla, stærsti eigandi MS, greiddi fyrir hlutafjáraukninguna með fasteignum sem metnar voru á 2,1 milljarð króna og Kaupfélags Skagfirðinga breytti 230 milljóna króna skuld MS við Kaupfélagið í hlutafé. Eftir hlutafjáraukninguna er samsetning hluthafahópsins MS óbreytt, Auð­ humla á áfram 90,1% hlut í MS og Kaupfélag Skagfirðinga á 9,9% hlut.

Egill Sigurðsson, stjórnarformaður MS og Auðhumlu, segir Auðhumlu hafa greitt fyrir hlutaféð með húsnæði sem MS hefur leigt undir vinnslustöðvar fyrirtækisins á Selfossi, Akureyri, Egilsstöðum og í Búðardal. Virði fasteignanna hafi verið byggt á verðmati sem Magnús Leópoldsson fasteignasali vann.

Eignatilfærslan hafi einnig verið gerð af praktískum ástæðum. „Það er stöðugt verið að breyta þessu húsnæði og að mörgu leyti eðlilegt að eignarhaldið á fasteignum sé á einni hendi,“ segir hann.

MS standi styrkum fótum

Eigið fé MS í ársbyrjun 2017 nam 4,6 milljörðum króna en þá var eiginfjárhlutfall félagsins 39%.

Eftir hlutafjáraukninguna verður eigið fé MS rúmlega 50% að sögn Egils. „Þannig að fyrirtækið stendur mjög traustum fótum eignarlega séð, eins er móðurfélagið mjög sterkt eignarlega líka.“

Egill segir að stærsta eign Auð­humlu séu skuldlausar höfuð­stöðvar MS í Reykjavík, sem MS leigi af Auðhumlu. Auk þess á Auðhumla fasteignir víða um land en félagið er samvinnufélag í eigu um 600 kúabænda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .