NOREX kauphallirnar í Reykjavík, Osló, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Helsinki setja á stofn nýjar norrænar vísitölur, VINX vísitölurnar, þann 3. apríl næstkomandi, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Tilgangurinn með vísitölunum er að endurspegla norræna hlutabréfamarkaðinn á áreiðanlegan hátt og varpa ljósi á fjárfestingartækifæri á honum.

Fimm íslensk félög komast inn í viðmiðunarvísitöluna (VINX Benchmark) við fyrsta val. Þau eru Actavis Group, Bakkavör Group, Kaupþing banki, Kögun og Straumur-Burðarás.

Mun hún saman standa af um 150-200 fyrirtækjum. Að þessu sinni komust 202 fyrirtæki inn í vísitöluna.

VINX vísitölurnar verða viðmiðunar-, afleiðu-, heildar-, og atvinnugreinavísitölur og eru þær byggðar á öllum skráðum félögum á norrænu mörkuðunum.

Um það bil 800 félög eru skráð í þessum fimm kauphöllum og er markaðsvirði þeirra í kringum 1.000 milljarðar evrur. VINX vísitölurnar verða til viðbótar og óháðar þeim vísitölum sem nú þegar eru reiknaðar í kauphöllunum.

VINX Benchmark verður leiðrétt fyrir floti.

?VINX vísitölurnar eru mikilvægur áfangi í NOREX samstarfinu og innkoma skráðra, íslenskra fyrirtækja í þær stuðla að auknum sýnileika íslenska markaðarins á erlendum vettvangi. Styrkir þetta okkur í frekari vinnu við að færa íslenska hlutabréfamarkaðinn inn í fleiri alþjóðlegar vísitölur og gera hann samkeppnishæfari á alþjóðavettvangi," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar.

VINX afleiðuvísitalan (VINX Tradable Index, eða VINX30) mun samanstanda af 30 stærstu og mest seljanlegu hlutabréfum á Norðurlöndum. VINX30 verður leiðrétt fyrir floti. Ekkert íslenskt félag náði inn í fyrsta val vísitölunnar.

Heildarvísitalan byggir á öllum skráðum félögum á Norðurlöndunum og verður hún ekki leiðrétt fyrir floti.

Atvinnugreinavísitölurnar verða byggðar á flokkunarkerfi Morgan Stanley Capital International Inc. (MSCI) og Standard & Poor's (S&P), svokölluðu GICS kerfi.

Vísitölurnar eru reiknaðar fimm ár aftur í tímann, eða frá 1. janúar 2001. Upphafsgildi VINX Benchmark vísitölunnar er 100 en 1.000 fyrir VINX30.