Tímabundin fjárheimild upp á 800 milljónir króna vegna framkvæmda við Hús íslenskra fræða fellur niður í nýju fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár sem lagt var fram á Alþingi í dag. Búið er að grafa grunn fyrir húsinu sem er á milli Hótels Sögu og Þjóðarbókhlöðunnar. Það á m.a. að hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Bygging hússins er samvinnuverkefni ríkisins og Háskóla Íslands.

Áætlað er að bygging hússins kosti rúma 3,4 milljarða króna og skiptist kostnaðurinn milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Háskóla Íslands í hlutföllum 70/30%.

Í fjárlögum fyrir næsta ár segir að framkvæmdin sé hlut af Fjárfestingaráætlun fyrir Ísland árin 2013 til 2015 en að áætlaðar tekjur sem áttu að fjármagna hana, s.s. sérstakt veiðigjald á auðlindaarð sjávarútvegsins, söluhagnaður og eignasala hafi ekki reynst byggðar á nægilega traustum grunni.

Fyrsta skóflustunga var tekin að húsinu í mars á þessu ári. Þær duttu niður í sumar þegar óvissa skapaðist um framkvæmdina. Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks, sem átti lægsta boð í framkvæmdina sagði í samtali við RÚV í júlí fyrirtækið ætla að bregðast hart við, jafnvel fara fram á skaðabætur.

RÚV sagði í júlí ekki ljóst hvort af frekari framkvæmdum verði eða hvort mokað verði ofan í holuna aftur.