Allt stefnir í að uppbygging ferðamannastaða verði sett á fjárlög og verður hún því ekki fjármögnuð á næstu misserum með samræmdri gjaldtöku stjórnvalda. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í samtali við Fréttablaðið .

„Við fjármálaráðherra ræddum strax við upphaf þessa máls að einfaldasta lausnin væri að setja uppbyggingu ferðamannastaða á fjárlög. Í þann farveg virðist mér þetta mál að vera að stefna núna, og muni þá keppa um fjármagn við annað sem þarf að sinna,“ segir Ragnheiður Elín.

Ragnheiður Elín segir að áætla megi að milljarð þurfi árlega í þetta verkefni á næstu árum. Þá segir hún að núverandi frumvarp um náttúrupassa verði líklega ekki lagt fram aftur. „Miðað við reynsluna af vinnu síðustu mánaða við þetta mál sé ég ekki fram á að leggja það fram aftur í haust - eða yfirleitt.“