Iceland Seafood International hefur ákveðið að sameina tvö félög sín í Bretlandi, Iceland Seafood Barraclough og Havelok í eitt félag, Iceland Seafood UK, undir einni stjórn á einum stað. Segir Bjarni Ármannsson forstjóri ISI aðgerðina vera lið í því að uppfylla áætlanir um fjárfesta í lykilmörkuðum félagsins, eftir hlutafjáraukningu í október á síðasta ári.

Hefur félagið til þess tryggt sér lóð á iðnaðarsvæðinu Great Grimsby Business Park við samnefnda borg, en lóðin var áður í eigu 5 Star Fish Site. Eftir endurbætur hyggst félagið síðan flytja starfsemi beggja félaga sinna á staðinn, og er ætlunin að nýja aðstaðan verði komin í gagnið snemma árs 2021.

Heildarfjárfestingin í lóðinni, endurnýjun og búnaði er á bilinu 5 til 6 milljónir breskra punda, eða sem samsvarar miðað við gengi dagsins í dag 824 til 990 milljónum króna. Á lóðinni er nú þegar 2.000 tonna kæligeymslurými og þrjú vinnslusvæði á um 10 þúsund fermetra svæði.

Jafnframt hefur félagið samið við stjórnendur, sem jafnframt eru eigendur 33% hlutar í Havelok, um kaup á hlutunum fyrir 3 milljónir punda, en helmingurinn verður greiddur með reiðufé en hinn helmingurinn með hlutum í ISI.

Það þýðir að hátt í 25 milljón ný bréf í félaginu verða gefin út. Danny Burton sem stýrt hefur Havelok mun halda áfram og stýra uppsetningu nýja vinnslusvæðinu, en stjórnandi hins félagsins Peter Hawkins, mun stýra hinu nýja félagi.