Samkeppniseftirlitið telur að yfirtaka Landsbankans á Lífsvali raska samkeppni og að nauðsynlegt væri að setja samrunanum skilyrði. Þetta kemur fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á heimasíðu þess. Lífsval rekur í dag meðal annars þrjú kúabú og hefur framleiðslurétt á mjólk. Félagið rekur einnig tvö sauðfjárbú og á jarðir hér á landi.

Helstu eigendur Lífsvals voru þeir Guðmundur A. Birgisson, löngum kenndur við Núp í Ölfusi, og fleiri fjárfestar. Þar á meðal er athafnamaðurinn Ólafur Wernersson með 15,6% hlut. Fjölmargar jarðir félagsins voru auglýstar til sölu í maí og er Fasteignamiðstöðin með söluna á sinni könnu.

Lífsval og Landsbankinn hafa samþykkt þau skilyrði sem Samkeppniseftirlitið setti fyrir samrunann. Samkvæmt ákvörðuninni eiga skilyrðin að draga úr samkeppnisröskun sem stafað getur af eignarhaldi bankans.

Niðurstaða eftirlitsins sem Landsbankinn og Lífsval hafa samþykkt að hlíta felur meðal annars í sér að eignarhlutur Landsbankans verði í sérstöku eignarhaldsfélag. Stjórnarmönnum í Eignarhaldsfélaginu og starfsmönnum þess er óheimilt að grípa til nokkurra ráðstafana sem dregið geta úr viðskiptalegu sjálfstæði Lífsvals eða takmarkað samkeppni á þeim mörkuðum sem Lífsval starfar á. Stjórn og starfsmönnum Landsbankans er óheimilt að beina fyrirmælum, tilmælum eða ábendingum til stjórnarmanna eða starfsmanna Eignarhaldsfélagsins og Lífsvals sem miða að eða geta haft þau skaðlegu áhrif sem tilgreind eru í a-lið.

Þá skal einnig tryggja sjálfstæði Lífsvals gagnvart Landsbankanum og er bankanum óheimilt að hlutast til um viðskipti á milli Lífsvals og annarra viðskiptavina bankans. Úrskurð Samkeppniseftirlitsins í heild sinni má nálgast hér .