Fljótlega mun hefjast framleiðsla á nýjum vegabréfum hjá frændum okkar í Noregi. Teiknistofan Neue sá um hönnun vegabréfanna, sem hefur hlotið þónokkra athygli, en í þeim er notast við „norðurljósin“ til þess að sýna fram á að handhafi vegabréfsins sé norskur ríkisborgari. Túristi greinir frá þessu.

Norðurljósin koma þannig fyrir í vegabréfinu að þau sjást einungis þegar landamæraverðir lýsa þau upp með útfjólubláu ljósi. Ef norðurljósin láta ekki sjá sig gefur það til kynna að vegabréfið sé falsað.

Forsvarsmaður Neue segir í samtali við Túrista að um leið og norska passanum hafi verið skilað í endanlegri útfærslu myndi fyrirtækið gjarnan vilja taka að sér endurhönnun á þeim íslenska.