Gengi hlutabréfa í finnska farsímaframleiðandanum Nokia rauk upp um 3,8% eftir að stjórnendur þess innsigluðu samning um sölu á nýjum snjallsíma í Lumia-seríunni hjá bandaríska fjarskiparisanum Verizon Wireless. Verizon er umsvifamesta fjarskiptafyrirtækið á sviði farsíma vestanhafs. Við gengishækkunina gekk til baka lækkun á gengi hlutabréfa Nokia frá áramótum.

Nýi síminn heitir Nokia Lumia 928 og verður hann fáanlegur í verslunum Verizon frá og með 16. maí næstkomandi. Síminn er svipaður og Nokia Lumia 920, með 4,5 tommu skjá, 8,7 MP myndavél og hægt að hlaða hann án þess að stinga honum í samband við rafmagn. Þá keyrir síminn á stýrikerfinu Windows 8 frá Microsoft.

Bloomberg-fréttaveitan segir í umfjöllun sinni um málið Nokia hafa átt erfitt að fóta sig á bandarískum farsímamarkaði til þessa.