Ráðgjafanefnd um fjármálastöðugleika (FSB) hefur sent frá sér nýtt regluverk fyrir stóra, alþjóðlega banka sem er ætlað að koma í veg fyrir að skattgreiðendur borgi brúsann lendi þeir í fjárhagsvandræðum. BBC News greinir frá málinu.

Nefndin er starfrækt í Basel í Sviss á vegum G-20 ríkjanna, en stjórnmálaleiðtogar víðs vegar úr heiminum lögðu fyrir hana að finna lausnir til þess að koma í veg fyrir að fall stórra banka lendi á skattgreiðendum.

Hefur nefndin nú lagt til nýjar reglur sem fela í sér að „alþjóðlega mikilvægir bankar“ haldi eftir ákveðinni lágmarksfjárhæð til þess að tryggja að þeir komist í gegnum stór töp án þess að ríkissjóðir þurfi að hafa þar aðkomu að. Fjárhæðin sem bönkunum skal skylt að leggja til hliðar á að nema um 15-20% af eignum þeirra.

Við alþjóðlega efnahagshrunið árið 2008 þurftu ríkissjóðir víðs vegar um heiminn að dæla fjármunum í banka til þess að koma í veg fyrir gjaldþrot. Vonar nefndin að með reglusetningunni verði hægt að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og ábyrgðin muni liggja hjá bönkunum sjálfum en ekki skattgreiðendum.