*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 23. apríl 2021 09:37

Setja ráðhúsið á sölu

Ráðhús Borgarbyggðar hefur verið sett á sölu. Ráðhúsið verður flutt yfir í húsnæði sem sveitarfélagið keypti af Arion banka.

Sveinn Ólafur Melsted
Gunnhildur Lind Photography

Sveitarfélagið Borgarbyggð hefur auglýst húsnæði að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, sem hefur hýst ráðhús sveitarfélagsins til fjölda ára, til sölu.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir skömmu hefur Borgarbyggð fest kaup á húsnæði að Digranesgötu 2 í bænum, en umrætt húsnæði var áður í eigu Arion banka. Mun ráðhús sveitarfélagsins flytjast þangað, en jafnframt er gert ráð fyrir að útibú Arion banka verði áfram í húsnæðinu.

Í fasteignaauglýsingunni er ekki sett fram uppsett verð eignarinnar, heldur er óskað eftir tilboði. Húsnæðið að Borgarbraut, sem var byggt árið 1960, er alls 1.053 fermetrar og nemur fasteignamat eignarinnar tæplega 100 milljónum króna. 

Ráðhúsið að Borgarbraut hýsti Sparisjóð Mýrasýslu áður en það varð að ráðhúsi Borgarbyggðar. Keypti sveitarfélagið húsnæðið af sparisjóðnum er sparisjóðurinn flutti starfsemi sína í Digranesgötu 2 árið 2005. Húsnæðið að Digranesgötu var einmitt byggt þetta sama ár undir bankastarfsemi sparisjóðsins.