Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun funda með lögreglustjóranum í Reykjavík á mánudaginn um reglur varðandi stórar rútur í miðborginni. Ætlunin er að hafa ákveðin svæði í jaðri miðborgarinnar þar sem rútur mega leggja. Mbl.is greinir frá þessu.

Ætlunin er að banna ökutæki yfir 8 metra á lengd á svæði í Þingholtunum og á Skólavörðuholti. Þjónustubifreiðar og neyðarbílar verða undanþegnir banninu. Í frétt mbl.is er haft eftir Degi að línur muni skýrast í málinu í vikunni. Samtal hafi átt sér stað milli borgarinnar, Samtaka ferðaþjónustunnar og rútufyrirtækja.

Dagur segir mikilvægt að aukin ferðaþjónusta verði borginni og íbúum hennar til góðs. Mörg hótel hafi hins vegar haft mjög stífar reglur um hvar eigi að sækja og skila farþegum og það hafi verið krefjandi fyrir rútufyrirtækin.