Fangelsismálastofnun hyggst festa kaup á eftirlitsratsjá til að setja upp við Litla-Hraun á Eyrarbakka. Tilgangurinn er að ratsjáin geri vart við mannaferðir utan girðingar í kringum fangelsið eða á svæðum innan þess sem eiga að vera lokuð.

„Þetta er hluti af því verkefni að bæta öryggismál á Litla-Hrauni. Fangelsismálastofnun hefur á síðustu árum fengið 150 milljónir til þess að meðal annars setja upp móttökuhús á Litla-Hrauni, skanna, nýjar girðingar og svo jafnframt þennan radarbúnað sem skiptir töluverðu máli í þessu samhengi,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.