Ríkisstjórnin kynnti í dag nýjar tillögur sem snúa að því að bæta stöðu lántakenda í landinu.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að meðal þess helsta sem nú er lagt til af hálfu ríkisstjórnarinnar er annars vegar stórbætt greiðsluaðlögunarfrumvarp, sem eftirleiðis verður félagslegt úrræði en ekki „vægara“ form gjaldþrots, eins og það er orðað í tilkynningunni.

Þannig munu fleiri hafa rétt á greiðsluaðlögun og verður nú eitt kerfi fyrir allar kröfur. Með þessu er samningsstaða lántakenda gagnvart sínum lánadrottnum bætt, að sögn ríkisstjórnarinnar.

Samhliða nýju greiðsluaðlögunarfrumvarpi verður sett á fót embætti umboðsmanns skuldara sem byggt verður á traustum grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Umboðsmaðurinn verður talsmaður lántakenda gagnvart lánardrottnum og er ekki hlutlaus.