Haukur Alfreðsson
Haukur Alfreðsson
© Gígja Einarsdóttir (Gígja Einars)
Haukur Alfreðsson, framkvæmdastjóri bátasmiðjunnar Rafnar, segir endurskipulagningu fyrirtækisins hafa tekist án þess að viðbótarfjármagn hafi þurft til.

„Það þurfti ekki, það er það skrýtna við þetta, sem sést kannski best á því að í upphafi ársins 2019 eru ákveðnir sjóðir í fyrirtækinu sem við erum eiginlega með í sömu krónutölu árið 2019. Að fjárhagslega endurskipulagningin tókst svona vel má þakka mikilli vinnu bæði Björns Ársæls Péturssonar stjórnarformanns sem kom inn í stjórnina í desember 2018, og Bjarna syni Össurar Kristinssonar, eiganda Rafnar. Þegar þarna var komið stefndi í óefni nema eitthvað væri gert og veltum við því hverjum einasta steini í fyrirtækinu en okkur tókst að finna leiðir til að bjarga fyrirtækinu," segir Haukur.

„Þetta var ekkert auðvelt, við vorum fastir í ákveðnum samningum um húsaleigu sem var mjög þung í skauti og það var mikil vinna í því að leigja þau rými út frá okkur og svo pakka saman og flytja. Við fluttum hingað yfir í næsta hús við gömlu aðstöðu Rafnar í lok febrúar 2020, en þremur dögum áður en við áttum að flytja þá brennur hérna í aðstöðu Hamars við hliðina á okkur og ekkert útséð með að við gætum flutt. Eldurinn komst í þakið hérna fyrir ofan og þegar við komumst inn í húsnæði var hérna allt fullt af vatni og skítur svo við höfum verið að lenda í ýmsu."

Endurskipulagningin fór jafnframt að sögn Hauks í nokkuð misvísandi áttir til að byrja með áður en núverandi mynd komst á hana, en samhliða fækkaði starfsmönnum úr því að vera um 45 þegar mest var í um 12 í dag.

„Fyrst var hugmyndin sú að Rafnar ehf. sæi einungis um að halda utan um vernd á tækninni, það er einkaleyfið og sölu- og markaðsstarfinu sem og allri framleiðslunni væri úthýst. Vorið 2018 var öllum sagt upp hérna og við vorum einungis í því að klára þá báta sem voru í pöntun og afhentum við síðasta bátinn í byrjun árs 2019 til Landhelgisgæslunnar," segir Haukur.

„Haustið 2018 var samið við annað fyrirtæki um sölu- og markaðssetningu á tækni félagsins, en sú ráðstöfun gekk ekki eftir eins og menn vonuðust eftir og kláruðum við að ganga frá því að samningurinn um það gekk til baka núna í nóvember 2019. Það var talið heppilegra að öll stjórnunin á sölu- og markaðssetningunni væri hérna innan Rafnar því þannig værum við að styrkja söluna og þróunina samhliða og ég held það sé að gefast vel núna."

Bátasmiðjan Rafnar ehf. var stofnuð árið 2005 í kringum hugmynd Össurar Kristinssonar uppfinningamanns, sem einnig stofnaði stoðtækjafyrirtækið sem ber nafn hans, á nýstárlegu bátalagi. Nýja hönnunin á að sameina helstu kosti bæði svokallaðra rúmmálsbáta sem liggja dýpra í vatni og geta borið meira en planandi bátar sem lyfta sér upp á ölduna á ferð, en skella hart niður með tilheyrandi óþægindum fyrir farþega og álag á búnað við erfiðar aðstæður.

„Alltaf hægt að vera gáfaður eftir á“

„Það voru settir miklir fjármunir í ýmiss konar framleiðslutæki hérna, eins og til dæmis tölvustýrða fræsa til að búa til mót fyrir skrokkana, og svo vorum við einnig með öfluga vatnsskurðarvél. Við seldum þennan tækjabúnað sem lið í fjárhagslegu endurskipulagningunni og breyttum áherslum, en hann tók líka óhemjupláss, og þar með húsaleigu.

Þessi búnaður nýttist þó auðvitað vel þegar verið var að prófa sig áfram með hönnunina, enda voru margar tegundir smíðaðar á stuttum tíma sem hefði verið óhemjudýrt hefði hver útgáfa verið aðkeypt. Núna kaupum við þessa þjónustu frá undirverktökum þegar við þurfum á henni að halda," segir Haukur sem viðurkennir að líklega hefði verið hægt að gera hlutina ódýrar á sínum tíma.

„Það er alltaf hægt að vera gáfaður eftir á, en það var mikið lagt í þetta, og unnið hratt, enda algerlega ný tækni á ferðinni sem auðvitað krafðist mikils fjármagns og voru margir tilraunabátar smíðaðir, í nánu samstarfi við Landhelgisgæsluna sem hjálpaði okkur mikið í því. Á þessum tíma var hugmyndin á bakvið fyrirtækið að selja leyfi til notkunar á hönnuninni undir hvaða báta sem er, sem gat verið happa og glappa hvernig til tókst.

Fyrsta framleiðsluútgáfan á Rafnar bátum var tilbúin 2015, og hefst eiginlegt sölu- og markaðsstarf þá. Á þessum tíma gerðum við til dæmis samninga við aðila í Ástralíu en þótt margir aðrir hefðu áhuga þorðu menn aldrei að stökkva og taka þá ákvörðun að fara af stað. Núna er stefnan að koma okkar vörum á framfæri sjálfir og sýna fram á að tæknin virki með okkar eigin bátum þar sem við höfum meiri stjórn á því hvernig báturinn er og hvað hann getur."

Tvöföldun tekna milli ára

Í viðtali við Össur Kristinsson, eiganda og hugmyndamanninn á bakvið Rafna, og þar áður stoðtækjafyrirtækið sem heitir eftir honum, í Frjálsri verslun í október 2019 sagði Össur við blaðamann að hann hefði sett um 5 milljarða króna í hönnunarvinnuna á bakvið einstakt bátalagið sem framleiðsla Rafna byggir á. Spurður hvort hann sæi eftir peningunum í þetta sagði hann á sínum tíma:

„Nei, aldeilis ekki, þetta hefur verið afskaplega gaman. Ég hef unnið með gríðarlega mörgu fólki sem hefur veitt mér innblástur, og verið góðir vinir og ég sé ekki eftir neinu."

Í ársreikningi Rafna frá árinu 2018 sést að tekjurnar fóru úr 209 milljónum árið 2017 í 93 milljónir árið 2018, samhliða því að tap af rekstri félagsins fór úr hálfum milljarði í ríflega 868 milljónir. Haukur, sem kom inn í félagið sem ráðgjafi árið 2017 og tekur við rekstrinum í desember 2018, segir tekjur síðasta árs hafa tvöfaldast á ný.

„Þær fara í 178 milljónir, en fjárstreymið er nánast í núlli, eða neikvætt um 9 milljónir. EBITDA Rafnar lækkar svo úr því að vera neikvæð um 865 milljónir í neikvæða um 65,7 milljónir," segir Haukur sem segir Össur ekki hafa sett neitt nýtt fé inn í félagið síðustu ár fyrr en nú fyrir undirbúninginn að smíði nýju 14 metra skipunum.

„Hann setti inn 20 milljónir í fyrra og svo 40 milljónir í ár. Við ætluðum svo að vera aðeins í hagnaði í ár, en stefnum nú í að vera við núllið út af kórónuveirufaraldrinum og öðru."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .