Veitingastaðir Gló eru nú orðnir fjórir talsins en hlutverk Petreu I. Guðmundsdóttur, nýráðins framkvæmdastjóra félagsins, verður að sækja aukinn vöxt og auka arðsemi félagsins.

„Þetta er spennandi markaður í örum vexti og í því liggja tækifærin fyrir Gló sem verið hefur leiðandi í þessum holla og góða lífsstíl og fæðuvali sem samfélagið er sífellt að verða opnara fyrir,“ segir Petrea, sem lengi hefur verið traustur viðskiptavinur keðjunnar. „Þetta tækifæri kom svolítið í fangið á mér en ég er mikill matgæðingur og leyfi mér ýmislegt í mat svo þetta samræmist mjög áhugasviðinu.“

Petrea hefur mestan sinn starfsferil starfað í fjarskiptageiranum en hún kláraði viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

„Ég byrjaði hjá Símanum og vann mig upp og var framkvæmdastjóri síðustu starfsárin mín þar, en svo þegar ég eignaðist yngri stelpurnar mínar með 15 mánaða millibili sagði ég upp og var heima hjá þeim í örugglega þrjú ár ásamt því að vinna sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi,“ segir Petrea.

„Síðan tek ég við sem forstjóri Tals þangað til félagið var sameinað 365 en eftir það starfaði ég sem framkvæmdastjóri hjá sameinuðu félagi.“ Petrea á ásamt manni sínum, Benedikt K. Magnússyni sviðstjóra hjá KPMG, þrjár dætur á aldrinum 6, 7 og 16 ára.

„Það eru ákveðin forréttindi fólgin í því að geta valið að vera heima með börnunum sínum, en það er líka krefjandi að vera ekki í vinnu og vera framkvæmdastjóri heimilisins,“ segir Petrea sem segist hafa mætt skilningi í íslensku samfélagi við þá ákvörðun að setja starfsferilinn á bið fyrir börnin sín.

„En fólk þarf fyrst og fremst að vera sjálft sátt við þessa ákvörðun, að því líði vel í eigin skinni.“ Eins og gefur að skilja snýst líf Petreu mikið um fjölskylduna utan vinnu, en öll fjölskyldan hefur gaman af því að fara saman á skíði og gerir mikið af því.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .