Ratsjárstöðvarnar fjórar allt í kringum landið voru uppfærðar á árinu fyrir samtals 28 milljónir evra, eða sem nemur 4,6 milljörðum íslenskra króna að því er Fréttablaðið greinir frá.

Þar af greiddi íslenska ríkið tæplega hálfan milljarð króna, þá fyrir kostnað vegna uppfærslu á svokallaðri svarratsjá sem notuð er til að staðsetja flugvélar með merkjasendingu frá stöðvunum og ratsjársvara í vélunum sjálfum.

Isavia notar hluta kerfisins í ratsjárstöðvunum sem staðsettar eru á Miðnesheiði á Reykjanesi, Bolafjalli fyrir ofan Bolungarvík á Vestfjörðum, á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi á Norðausturlandi og svo Stokksnesi við Höfn í Hornafirði á suðausturhorni landsins.

Atlantshafsbandalagið, Nato, greiddi afganginn af kostnaðinum en 24 sérfræðingar frá kanadíska flughernum komu og sáu um uppsetningu búnaðarins með aðstoð starfsfólks Landhelgisgæslunnar.