Hluthafahópurinn sem keypti Morgunblaðið í settu 651 milljón króna inn í Þórsmörk ehf., móðurfélag Morgunblaðsins, á árinu 2009. Eignarhlutur félagsins í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, er metinn á 300 milljónir króna en auk þess átti félagið 214 milljónir króna í handbæru fé og 152 milljónir króna kröfu á tengda aðila.

Það þýðir að 366 milljónir króna voru til taks inni í Þórsmörk í lok síðasta árs. Á sama tíma var félagið nánast skuldlaust. Þetta kemur fram í ársreikningi Þórsmerkur ehf. sem skilað var inn til ársreikningaskrár síðastliðinn þriðjudag.

Þrír af tíu hluthöfum eru óþekktir

Alls voru hluthafar Þórsmerkur tíu talsins í lok árs. Ekki er tiltekið hverjir þeir eru í ársreikningnum en áður hefur komið fram opinberlega að í hópnum séu Guðbjörg Matthíasdóttir, Óskar Magnússon, Gísli Baldur Garðarsson, Gunnar B. Dungal, Þorgeir Pálsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Pétur H. Pálsson.

Ekki hefur verið tilgreint opinberlega hverjir hinir þrír hluthafarnir eru. Í ársreikningnum kemur einnig fram að þrír hluthafanna eigi yfir 10% eignarhlut.

Skuldlaust með 99,6% eiginfjárhlutfall

Líkt og áður sagði lögðu hluthafar Þórsmerkur fram um 650 milljónir króna til félagsins á síðasta ári. Svo virðist sem að 300 milljónir króna hafi farið í að kaupa Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins. Afgangur fésins er aðallega 150 milljóna króna krafa á einn hluthafann og 214 milljóna króna handbært fé.

Eina skuld félagsins er 2,5 milljóna króna skattaskuld og því ljóst að Þórsmörk hefur ekki þurft að taka lán til að kaupa Morgunblaðið. Eigið fé félagsins er 664 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið 99,6%.

Þórsmörk keypti Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, í  lok febrúar 2009. Íslandsbanki hafði þá haft félagið í söluferli eftir að ljóst varð að það stóð ekki undir skuldum sínum. Eignarhluti fyrri hluthafa var þá færður niður að öllu leyti.

Nýjir eigendendur ráku Ólaf Þ. Stephensen úr stóli ritstjóra Morgunblaðsins í september 2009. Í október sama ár réðu þeir Davíð Oddsson og Harald Johannessen í hans stað.

Árvakur hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2009.