Bæði Síminn og Vodafone segja að vel hafi verið tekið í nýjar áskriftaleiðir sem fyrirtækin tvo hófu að bjóða á lauardaginn. Tilboð þeirra ganga út á það að fólk hættir að greiða fyrir símtöl úr GSM og smáskilaboð en greiðir þess í stað eingingu fyrir  niðurhal í símunum. Þessi nýja áskriftarleið Símans heitir Endalaust en hjá Vodafone er hún kölluð Vodafone Red.

„Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Bæði hefur fjöldi nýrra viðskiptavina bæst í hópinn og viðskiptavinir okkar hafa skipt um þjónustuleiðir og njóta nú enn betri kjara en áður. Enn fleiri hafa þó hringt til að kanna og meta hvort þjónustuleiðin henti þeim og við hjálpum þeim að sjálfsögðu að taka ákvörðun sem hentar þeim,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, í skriflegu svari við fyrirspurn VB.is.

Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Vodafone tekur í svipaðan streng. Þær hafa verið ansi góðar. Bæði hafi neytendur hringt í Vodafone til að spyrjast fyrir og úthringingar Vodafone til viðskiptavina gengið vel. Þá hafi verið spurt um þjónustuna í verslunum Vodafone. „Þannig að við kvörtum ekki yfir fyrstu viðbrögðum,“ segir hann.

Varan undirbúin í marga mánuði
Hrannar segir að Vodafone hafi verð að undirbúa vöruna í sex til átta mánuði og markaðssetninguna í svipað langan tíma. Gunnhildur segir einnig að varan hafi verið í undirbúningi hjá Símanum um nokkurra mánaða skeið. „Við höfum í marga mánuði undirbúið þessa vöru fyrir viðskiptavini okkar en af krafti frá nóvember 2013,“ segir Gunnhildur.

Það vakti athygli VB.is að bæði fyrirtækin byrjuðu að kynna vöruna saman daginn. Talsmenn beggja fyrirtækja þvertaka fyrir það að fulltrúar fyrirtækjanna hafi talast við áður en varan var sett á markað.

Gunnhildur segir einfalda ástæðu liggja að baki því að Síminn fór með vöruna í loftið núna. „Þessi þjónusta hefur verið að ryðja sér til rúms víða um heim. Hún lá í loftinu. Þess vegna höfðum við undirbúið okkur vel, reiknað út og skoðað svo mánuðum skiptir áhrif þess að fara þessa leið. Við stefndum þangað og höfðum þegar tekið upp sjónvarpsauglýsingar og undirbúið annað markaðsefni og kynningu,“ segir Gunnhildur.

„Við töluðum að sjálfsögðu ekki við keppinautinn áður en við fórum í loftið. Öllum mátti vera ljóst hvert stendi þegar keppinauturinn taldi niður dagana í þjónustuna. Við þær aðstæður var ekki eftir neinu að bíða,“ segir Gunnhildur.

Hrannar segir það einnig vera af og frá að fulltrúar fyrirtækjanna tveggja hafi talað saman. „Það er gríðarlegur slagur á þessum markaði og það birtist í því að menn eru hver í sínu horni að skoða hvert markaðurinn er að fara,“ segir Hrannar.