Baldur Stefánsson mun frá og með 1. febrúar veita starfsemi Beringer Finance á Íslandi forstöðu. „Þetta er banki sem starfar á stórum markaði, en lunginn úr starfsemi bankans er í Noregi og Svíþjóð,“ segir Baldur.

„Innan bankans mun ég veita einingu forstöðu á alþjóðavísu sem mun einblína á verkefni tengd endurnýjanlegri orku og umhverfisvæna tækni, en ég er búinn að vinna töluvert mikið í þeim geira hér á Íslandi.“

Baldur segir þetta verða stærri alþjóðleg verkefni að stórum hluta.

„Við höfum verið að vinna töluvert í verkefnum tengdum jarðvarma, vatnsafli og fleiri endurnýjanlegum orkugjöfum en þarna þarf að lyfta grettistaki á alþjóðlegum mörkuðum á næstu árum,“ segir Baldur.

„Við ætlum að byggja upp teymi innan bankans til þess að aðstoða fyrirtæki og fjárfesta við bæði fjármögnun og kaup og sölu eininga, samruna og yfirtökur og allt þetta hefðbundna sem fylgir þessari starfsemi, en við teljum að þetta sé mikilvægur geiri sem nauðsynlegt sé að sinna vel.“

Baldur hefur komið víða við á starfsferli sínum, en allt hófst þetta í raun með stjórnmálaþátttöku og síðan tónlist.

„Ég var stúdent úr MR, síðan fer ég í Háskólann og lærði stjórnmála- og hagfræði, reyndar kláraði ég ekki því á þriðja ári fékk ég spennandi starf hjá Alþýðuflokknum enda hafði ég miklar skoðanir og var hálfgerður hægrikrati.

Alþýðuflokkurinn á þessum tíma þótti manni vera einhvern veginn pragmatískur teknókrataflokkur,“ segir Baldur.

„Ég ræð þar inn í kosningabaráttu mjög frjóa drengi sem voru búnir að gera mörg tónlistarmyndbönd, þá Sigurð Kjartansson og Stefán Árna Þorgeirsson. Síðar stofnaði ég fyrirtæki með þeim tveimur sem var eiginlega framleiðslufyrirtækið og grunnurinn að GusGus-hópnum.

Við setjum þarna saman súpergrúppu af alls konar snillingum og gerum kvikmynd og plötu og svo rúllar þessi bolti af stað og ég er framkvæmdastjóri þess fyrstu fjögur árin. Á þessum tíma stofnuðum við m.a. Iceland Airwaves."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .