Iðnaðarhúsnæði sem er í eigu Stefáns Kjærnested og sem nýtt hefur verið í umdeilda útleigu gistiherbergja hefur verið auglýst til sölu. Húsnæðið, sem er á fjórum stöðum og allt ósamþykkt sem íbúðarhúsnæði, er á Funahöfða í Reykjavík, Dalshrauni í Hafnarfirði og Smiðjuvegi í Kópavogi og telur alls tæplega 3.700 fermetra, að meðtöldu iðnaðar- og verslunarrými.

Um 160 íbúðarherbergi eru í húsnæðinu sem leigð hafa verið út af félaginu Leiguherbergi ehf., sem einnig er í eigu Stefáns. Í auglýsingum fyrir húsnæðið kemur fram að 10-25 fermetra herbergi kosti 65 til 100 þúsund krónur á mánuði og stúdíóherbergi á 130 þúsund krónur á mánuði. Rukkað er aukalega 25-27,5 þúsund krónur séu tveir íbúar í herbergi samkvæmt upplýsingum á vef Leiguherbergja.

Íbúar oft kvartað undan aðbúnaði

Herbergin eru almennt ekki með salerni heldur er salerni, eldhúsi og þvottaaðstöðu deilt með öðrum íbúum.

Í gegnum árin hafa reglulega verið fluttar fréttir af bágum aðstæðum leigjenda í húsnæðinu. Viðmælandi Stundarinnar lýsti húsnæðinu á Funahöfða sem „Hótel Mordor“ eftir myrkraríki Sauron í Hringadróttinssögu. Sumarið 2018 kviknaði eldur í húsnæðinu og var einn fluttur á sjúkrahús vegna ótta við reykeitrun, en sá hinn sami var grunaður um íkveikju. Í umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Bresta árið 2014 var haft eftir íbúum að húsnæðið væri óþrifalegt, pöddur skriðu um gólf og munum leigjenda væri stolið.

Húsnæðið er í eigu félaganna Atlants Holding ehf. og D-13 ehf., sem er svo aftur í eigu félagsins LTC ehf., líkt og Leiguherbergi ehf.

LTC er í eigu Stefáns, en var í eigu Símonar I. Kjærnested, fram til ársins 2018, föður Stefáns, en Símon er jafnframt stjórnarformaður Atlantsolíu. Þó að viðmælendur fjölmiðla á síðustu árum hafi sagt að aðstaðan hjá Leiguherbergjum sé ekki upp á marga fiska, er hún sögð enn verri hjá mörgum öðrum. Á meðan þörf sé fyrir ódýrara húsnæði en býðst á hefðbundnum leigumarkaði sé eftirspurn eftir herbergjum í ósamþykktu atvinnuhúsnæði.

Segir félagið uppfylla kröfur

Í skriflegri svari Leiguherbergja við fyrirspurn Viðskiptablaðsins félagið allar kröfur sem gerðar séu til starfseminnar.

„Við höfum ávallt lagt mikinn metnað í að uppfylla allar kröfur um brunavarnir og aðbúnað og eru þær í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru af þar til bærum yfirvöldum.“ Starfsemi félagsins sé einnig í samræmi við lög. „Útleiga herbergja í skammtímaleigu, er í samræmi við húsaleigulög og uppfyllum við öll lagaleg skilyrði,“ segir í svarinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .