Skilanefndir, slitastjórnir og æðstu stjórnendur slitabúa Glitnis, Kaupþings og LBI hf. hafa greitt sér meira en 5.170 milljónir króna í þóknanir frá árinu 2009. Þannig hafa meðlimir slitastjórna að meðaltali haft þóknanir sem nema á bilinu 5,5 til 10,6 milljóna króna á mánuði frá því að þeir tóku sæti í stjórnunum.

Setur óþægilega ábyrgð á hendur dómara

Eins og sakir standa er héraðsdómurum í sjálfsvald sett hvaða lögfræðingar eru skipaðir skiptastjórar, uppfylli þeir almenn hæfisskilyrði til þess. „Þeir þurfa að fullnægja skilyrðum laga um hæfi en að öðru leyti kemur enginn að ákvörðun dómarans,“ segir Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri Dómstólaráðs.

„Það eina sem dómari getur stuðst við eru þau hæfisskilyrði sem kveðið er á um í gjaldþrotaskiptalögum. Svo getur hann litið til þess og ég býst við að í huga hvers dómara sé það sjónarmið, ef búið sé stórt, að það þurfi reynslumikinn lögmann til þess. Lögmann sem hafi hugsanlega fengist við stór bú sem þessi áður og í öðru lagi lögmann sem hefur farist það verk vel úr hendi,“ segir Ingimundur Einarsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Hann segir núverandi fyrirkomulag leggja óþægilega ábyrgð á hendur dómara sem þurfi stundum sjálfir að kanna bakgrunn og fyrri störf mögulegra skiptastjóra. Til umræðu hafi komið innan dómarastéttar að breytinga sé þörf á fyrirkomulaginu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .