Halldór Kristmannsson hefur sett á fót vefsíðuna alvowhistleblower.com þar sem segir frá deilu sinni við stjórnendur lyfjafyrirtækisins Alvogen, þar á meðal „víkingastjóranum“ Róberti Wessman sem Halldór starfaði náið með í átján ár. Hann vonar að sagan sín gefi öðrum kjark til að láta í sér heyra við erfiðar aðstæður á vinnustöðum og berjast fyrir breytingum til hins betra.

„Þessi vefsíða endurspeglar mína persónulegu reynslu af því að tala opinberlega um röð atvika af einelti og áreitni á vinnustað, oft undir áhrifum áfengis, af Róberti Wessman, hinum þekkta „víkingastjóra“ (e. Viking Boss) lyfjafyrirtækjanna Alvogen og Alvotech,“ stendur efst á vefsíðunni.

Halldór kom fyrst fram í fjölmiðlum vegna þessa máls í lok mars og sakaði Róbert um „morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir“ á hendur meintra óvildarmanna. Í yfirlýsingu Róberts sama dag sagði hann að tilgangur ásakana Halldórs hafi verið fjárhagslegur. Jafnframt skrifaði Árni Harðarson harðorða grein í síðustu viku í garð Halldórs og taldi ásakanirnar stafa af andlegum veikindum, laumuhatri á manni sem hann vann mjög náið með eða hafi verið gerðar í fjárhagslegum tilgangi.

Halldór segir á vefsíðunni að því miður hafi uppreisn sín gegn valdi einungis haft í för með sér árás á mannorð sitt. Hann segir ákvörðunina um að gerast uppljóstrari hafa verið byggða á mjög djúpum áhyggjum af framtíð Alvogen og Alvotech.

„Alvo-fyrirtækin neituðu að bregðast við upplýsingunum mínum, hunsuðu sönnunargögn sem studdu  ásakanir mínar og þéttu hópinn til vernda herra Wessman en á sama tíma varpa þau fram ásökunum opinberlega á mínar hendur.“ Halldór hafði áður kallað niðurstöðu innanhúsrannsóknar fyrirtækjanna, þar sem rannsóknarteymi White & Chase var fengin til að meta ásakanir Halldórs, vera „hvítþvott“ undir áhrifum Róberts.

Á vefsíðunni eru birtar tilvitnanir í Halldór vegna málsins í erlendum fjölmiðlum á borð við Bloomberg, Techtoday News, Generics Bulletin og Nordic Life Science News