Samkeppniseftirlitið hefur sett skilyrði fyrir kaupum félagsins DM ehf. á Dreifingarmiðstöðinni ehf., sem felast meðal annars í því að koma í veg fyrir flæði upplýsinga á milli DM og Pennans, að því er fram kemur í frétt Samkeppniseftirlitsins. Eigendur félaganna eru að miklu leyti tengdir eða þeir sömu.

Samkeppniseftirlitið hefur athugað kaup félagsins DM ehf. á Dreifingarmiðstöðinni ehf. á grundvelli samrunaákvæðis samkeppnislaga. DM annast eftir kaupin rekstur vöruhúss og vörudreifingu meðal annars á bókum, tímaritum, ritföngum og skrifstofuvörum.

Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins eftir rannsókn á umræddum samruna að tilefni sé til íhlutunar á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga. Viðræður á milli samrunaaðila og Samkeppniseftirlitsins hafa leitt til sáttar um að aðilar hlýti skilyrðum sem koma eiga í veg fyrir óheppileg áhrif samrunans á samkeppni á viðkomandi mörkuðum.

Skilyrðin felast m.a. í því að koma í veg fyrir flæði upplýsinga á milli DM og Pennans og skapa jafnræði með þeim sem eru á mörkuðum fyrir bóka-, tímarita- og ritfangasölu. Í því skyni m.a. verður DM óheimilt að sinna innheimtu reikninga fyrir þá aðila sem fyrirtækið dreifir bókum og tímaritum fyrir.