Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur efasemdir um ágæti þess að hópur lífeyrissjóða stofnar sérstakt fyrirtæki  til að taka stórar stöður í öðrum fyrirtækjum. „Forsvarsmenn atvinnulífsins sem jafnframt ráða stjórnum lífeyrissjóða hljóta að spyrja sig hvort sú gerð af kapítalisma sé það sem best henti til að byggja upp framsækið atvinnulíf?“ spurði hann í ræðu sinni á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs.

Lífeyrissjóðirnir mynda m.a. ásamt Landsbankanum Framtakssjóð Íslands en eiga auk þess Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, Frumtak og fleiri sjóði. Þá eiga lífeyrissjóðirnir fé bundir í hinum ýmsu fjármálafyrirtækjum.

Undir stjórn fólks sem á ekki hagsmuna að gæta

Í erindi sínu kom Sigmundur meðal annars inn á samspil gjaldeyrishaft og fjárfestinga lífeyrissjóðanna. Hann sagði það þó ekki koma á óvart hversu fyrirferðamiklir þeir eru á hlutabréfamarkaði:

„Lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar í flestum skráðum félögum og margir hafa af því áhyggjur að atvinnulíf landsmanna sé að stórum hluta komið undir stjórn fólks sem ekki á beinna hagsmuna að gæta. Á meðan lífeyrissjóðir búa við gjaldeyrishöft þarf ekki að koma á óvart að þeir séu fyrirferðamiklir á íslenskum hlutabréfamarkaði,“ sagði hann og mælti með því að lífeyrissjóðirnir láti sömuleiðis verulega til sín taka á sviði nýsköpunar. Til þess að svo verði sé hins vegar nauðsynlegt að breyta lögum um lífeyrissjóði.

„Löggjöfin sem lífeyrissjóðir starfa eftir þarf að breytast svo að þeir geti tekið virkari þátt í að búa til þau auknu verðmæti sem mun þurfa til að standa undir lífeyri framtíðarinnar. Þess vegna þurfa lífeyrissjóðirnir að taka aukinn þátt í að skapa ný störf og ný verðmæti. Ef menn trúa því raunverulega að fjármagn sem rennur til nýsköpunar skili sér margfalt til baka, eins og flestir hér telja væntanlega að sé raunin, þá hljótum við líka að trúa því að fjárfesting lífeyrissjóða í nýsköpun, meðal annars með lánveitingum, skili þeim verulegum ávinningi. Þótt eitthvað tapist þá verði heildaráhrifin jákvæð.“